Er vorið að koma?

Er vorið að koma?

Nú er sólin farin að láta sjá sig af og til og kominn vorhugur í marga. Það er þó margt sem ber að varast og lengi er von á enn einum snjóstormi eins og við höfum nú flest tekið eftir hér á landi síðustu misseri.

Þegar vetrar lægðirnar eru ennþá að stríða okkur er gott leyfa vorhreingerningunni í garðinum að bíða enn um sinn. Fjölæringar og smærri runnar að njóta skjóls af laufum og greinum og gott að leyfa því að vera örlítið lengur eða þar til við sjáum fyrir endann á frosti og umhleypingum. Lauf og greinar hlífa viðkvæmari tegundum fyrir miklum hitabreytingum. Hlýindakaflar um miðjan vetur, líkt og í mars, geta valdið nokkrum skaða. Sumar tegundir s.s. gljámispill, alaskayllir og fjallarifs svo eitthvað sé nefnt eru fljót að bruma þegar hlýnar og eiga því til að kala þegar aftur kemur frost og kuldi. Ef skyndilega skellur á frost eftir svona hlýindakafla geta greinar kalið og jafnvel myndast frostsprungur í stofnum trjáa. Það er lítið hægt að gera í þessu nema reyna að skýla plöntum ef stefnir í mikinn kulda. Á vorin koma í ljós skemmdir eftir veturinn sem þarf að laga. Klippa þarf burt kal og frostskemmdir og saga burt greinar sem hafa látið undan snjóálagi því sveppir og allskyns sjúkdómar búa fljótt um sig í rifnum og tættum sárum eftir snjóbrot. Það er gott að ráðfæra sig við skrúðgarðyrkjumeistara varðandi klippingar, snjóskemmdir og kal.

Nú er tíminn til að klippa limgerðin og bíða vorsins sem er handan við hornið. Laukarnir sem settir voru niður síðasta haust eru byrjaðir að kíkja upp úr moldinni, í það minnsta krókusarnir. Þá er tilvalið að nýta tímann þar til vorið lætur endanlega sjá sig til að skipuleggja vor og sumarverkin og ákveða næstu skref í garðræktinni.

Twitter Digg Delicious Stumbleupon Technorati Facebook

Comments are closed.